|
komin heim
Jæja, ég er komin heim. Hér er síðasti hluti ferðasögu minnar. Það var ákveðið að fara til Peking tveimur dögum seinna en áætlað var (og sleppa þar með að skoða Kínamúrinn, frekar fúlt það) því okkur var boðið að fara í fjallaferð. Okkur var troðið í rútu sem var sem betur fer með góða loftræstingu. Eftir um fjögurra klukkustunda ferð stigum við út úr rútunni við glæsihótel og þokkalegur mannfjöldi hafði safnast saman til að horfa á okkur, hvítu útlendingana. Þetta þorp er í um þúsund metra hæð yfir sjávarmáli og ekki algengt að rúta ætti þar leið um, hvað þá full af íslenskum túrhestum. Allavega... við tjekkuðum okkur inn á glæsihótelið sem við fengum á spottprís því Stevens, velgjörðarmaður okkar, þekkir hóteleigandann. Síðan var haldið í keramikskóla og gengið þar um í smá tíma. Eftir það var haldið heim á hótel í veislu. Meðal kræsinga sem á boðstólum var voru rotta og hundur. Að sjálfsögðu gæddum við okkur á þessu með bestu lyst. Síðan var haldið upp á fjórðu hæð í karaókí. Daginn eftir var planið að skella okkur í að skoða keramikverksmiðju þar sem búnar eru til allskyns búddastyttur og síðan foss og halda svo niður af fjallinu. Rútan klifraði uppeftrit fjallinu á mjóum vegi og við mættum varla nokkrum bíl, einstaka mótorhljóli. Þartil allt í einu að það var umferðarteppa!! Í ljós kom að skriða hafði fallið á veginn og það var verið að moka henni í burtu. Eftir um klukkustundar bið komst umferðin áfram á ný. Ég hélt við myndum velta ofan í dalinn, þetta var svo tæpt! Skriða fyrir ofan okkur og frekar léleg brún hinu megin. Þegar þarna var komið sögu var fólk orðið frekar svangt svo það var stoppað á litlum veitingastað. Við fengum ólseigt kjöt sem okkur var sagt að væri uxi, en bragðaðist ekki ólíkt og hundurinn kvöldið áður. Við fengum líka skál með kjöti og grænmeti og Solveig uppgötvaði fuglshálsa og stóra kló með sundfitum þar ofaní. Ég endaði á því að borða hrísgrjón, fiskisúpu og örlítið af bambusi. Þegar við loksins komum að fossinum, eftir göngu í gegn um bambusskóg og 800 tröppur, sáum við að þetta var alveg þess virði. Náttúrufegurðin þarna er hreint ótrúleg. Á leiðinni heim með rútunni sáum við, okkur til skelfingar, að það hafði aftur fallið skriða og það á sama stað! Farið var í gang með að grafa hana í burtu. Í þetta sinn tók það styttri tíma en þegar umferiðn var komin á stað þurftum við að mæta hverjum trukkinum á fætur öðrum á þessum mjóa vegi. Öður megin var trukkurinn með dekkin hálf ofan í einhverri rennu sem var meðfram fjallinu og hinum megin var rútan eins nálægt brúninni og hægt var og bílarnir nudduðust næstum því saman! En allt gekk þetta vel og ekki húrruðum við niður brekkuna. Dagin eftir að við komum heim fórum við Solveig á stúfana að sækja jakkafötin sem ég lét sauma á Gústa og Dressið sem ég lét sauma á mig. Þegar við vorum að veifa á leigubíl streymdi að okkur hópur af krökkum í gulum bolum með fjólubláar svuntur og til að gera langa sögu stutta, þá enduðum við inni á hárgreiðslustofu. Við fengum hárþvott og höfuðnudd, klippingu á toppi og særingu á hári og ég fékk slöngulokka því krakkarnir vildu endilega gera eitthvað meira við hárið á mér. Það var alltaf hópur í kring um okkur sem sagði "Bjútifúl, bjútifúl!!!". Við borguðum sem svarar um 420 krónum fyrir herlegheitin. Síðan var haldið heim, gist eina nótt í Peking og eina í Amsterdam. Ég skrifa kannske sögur frá Kína seinna, en nú þarf ég að haska mér.
skrifað af Runa Vala
kl: 10:51
|
|
|